OR hækkar raforkudreifingu um 40 prósent

FréttirRagnar1.11.2010

Þann 1. nóvember hækkaði Orkuveita Reykjavíkur gjaldskrár fyrir raforkudreifingu um 40% eins og boðað hafði verið.  Ef almennur orkutaxti er notaður til samanburðar á kostnaði við raforkudreifingu eftir veitusvæðum er niðurstaðan eftirfarandi:

Dreifiveita Fastagjald [kr/ári] Orkugjald[kr/kWst]
HS Veitur 9.958 3.05
Norðurorka 9.939 2,88
Orkubú Vestfjarða 14.850 2.75
Orkuveita Reykjavíkur 10.005 3,53
Rarik - þéttbýli 15.827 3,05
Rarik - dreifbýli 19.052 4,62

Það vekur athygli að Orkuveita Reykjavíkur sem dreifir raforku á þéttbýlasta svæðinu hefur næsthæsta gjald fyrir dreifingu á raforku á þessum taxta.  Orkugjald OR er 28% hærra en hjá Orkubúi Vestfjarða og um 20% hærra en meðalorkugjald annarra dreifiveitna sem að ofan eru taldar ef frá er talin dreifing í dreifbýli.

Heildaráhrif hækkana

Heildarkostnaður vegna raforkukaupa fyrirtækja skiptist í dreifingu, flutning, orku og orkuskatt.  Hlutur dreifingar er nokkuð mismunandi eftir því hvaða gjaldskrár um er að ræða og eftir notkunarmynstri.  Fram til þessa hefur hlutur dreifingar verið nálægt fjórðungi af heildarorkuverði til fyrirtækja.  Þar með mun þessi 40% hækkun leiða hækkunar í námunda við 10% á heildarraforkukostnaði vegna raforku á dreifisvæði OR.  Almenn orkugjaldskrá sem tekin var til samanburðar að ofan er almennt notuð fyrir heimili og minni fyrirtæki.  Hjá þeim sem eru á þessari gjaldskrá í dreifingu og kaupa einnig orku á þessari gjaldskrá af OR hækkar heildarorkugjald um 12%.

Ýmsir sparnaðarmöguleikar fyrir hendi

Fyrirtæki geta gert ýmislegt til þess að hagræða hjá sér í raforkukaupum og raforkunotkun.  Almennur orkusparnaður er eitthvað sem ávallt er mikilvægt að hyggja að en fleiri leiðir geta skilað umtalsverðri hagræðingu.  Þar má nefna rétt val á gjaldskrá og samningar um afsláttarkjör við orkusala.  Orkuvaktin býður fyrirtækjum greiningu á hagræðingarmöguleikum í raforkukaupum þeim að kostnaðarlausu.

Frétt síðast uppfærð 2. nóvember 2010 kl. 10:21.

(í fyrri útgáfu var villa í töflu þar sem flutningsgjald var inni í verði hjá OR.  Beðist er velvirðingar á þessu.)

ICEconsult Mörkinni 6 108 Reykjavík orkuvaktin(hjá)orkuvaktin.is Sími: 412 8600