Breytingar á skilmálum ótryggðrar orku

FréttirRagnar8.7.2011

Nú styttist loks í það að samningar um ótryggða orku verði gerðir aðgengilegir fyrir nýja aðila, en kerfið hefur verið lokað frá árinu 2003.  Þessi lokun hefur verið bagaleg fyrir þau fyrirtæki sem hefðu geta nýtt sér slíka samninga.  Fyrir mörg iðfyrirtæki, t.d. þá aðila sem nota gufu í sinni framleiðslu, hefur valkosturinn verið olía.   Það hlýtur að teljast sorglegt til þess að vita að hér á landi skuli vera hagstæðara að brenna innflutta olíu en að nota innlenda raforku í iðnaði.

Orkuvaktin hefur ítrekað spurst fyrir um þessa nýju samninga hjá Landsvirkjun og hjá Orkustofnun.  Fátt hefur verið um svör, en fyrir síðustu mánaðarmót fóru viðskiptavinum Orkuvaktarinnar að berast uppsagnir á þessum samningum.  Engin fyrirheit voru gefin um hvað við tæki, en samkvæmt svörum sem Orkuvaktin fékk frá Landsvirkjun verður nýtt fyrirkomulag tilbúið áður en samningar renna út.  Ennfremur verður kerfið opnað fyrir nýjum aðilum og jafnframt upplýst að verð mundi hækka.  Í frétt í Morgunblaðinu í dag er haft eftir Andra Teitssyni, framkvæmdastjóra Fallorku, að flest bendi til að þessi orka muni hækka um allt að 50%!  Ennfremur að skilyrði um lágmarks orku verði til staðar sem takmarki verulega aðgang að þessari orku!

Þessar fréttir valda verulegum áhyggjum.  Í hópi viðskiptavina Orkuvaktarinnar eru bæði fyrirtæki sem eru að kaupa ótryggða orku, sem hafa búið sig undir að nota slíka orku og fjárfest í búnaði í þeim tilgangi, og fyrirtæki sem horft hafa til þess að færa sig yfir í raforku í stað þess að nota olíu.  Þessar fréttir setja verulegt strik í reikninginn hjá öllum þessum aðilum.

Orkuvaktin hvetur stjórvöld og stjórnendur Landsvirkjunar að bjóða orku sem þessa til iðnaðarnota á hagstæðu verði og stuðla þannig að öflugri framleiðslu innanlands með notkun umhverfisvænnar orku.  Við búum yfir þeirri sérstöðu að nánast öll raforka er "græn", og það skapar tækifæri til útflutnings á "grænni" framleiðslu.  Sú sérstaða getur aðeins orðið verðmætari eftir því sem árin líða.  Glötum ekki þeirri sérstöðu með því að gera olíuna hagkvæmari en raforkuna.

ICEconsult Mörkinni 6 108 Reykjavík orkuvaktin(hjá)orkuvaktin.is Sími: 412 8600