Samsetning Raforkukostnaðar

Raforkukostnaður samanstendur af kostnaði við flutning, dreifingu, orku og orkuskatt auk virðisaukaskatts.

Flutningsgjald er greitt fyrir flutning á raforku frá framleiðanda (virkjun) til dreifiveitu.  Landsnet hefur einkaleyfi á orkuflutningi og rekur flutningskerfi alls landsins.  Flutningsgjald stendur undir rekstri þess.  Gjaldið er fast gjald á kílóvattstund svo ekki skiptir máli hvort verið er að flytja orkuna 1 km eða 500 km.

Dreifigjald er gjald sem dreifiveita tekur fyrir dreifingu á viðkomandi svæði.  Dreifiveitur hafa einkaleyfi fyrir raforkudreifingu á sínu dreifiveitusvæði.  Dreifiveitan er einnig ábyrg fyrir uppgjörsmælingu á raforku.  Gjaldskrár geta verið með ýmsu móti og fer það eftir hversu mikil orka er notuð og hvernig hún er notuð hvaða gjaldskrá er hagstæðust.

Orkugjald er greitt til orkusala.  Notendur geta valið af hvaða orkusala þeir kaupa orku.  Eftirfarandi orkusalar eru nú starfandi:

  • Fallorka
  • HS Orka
  • Orkubú Vestfjarða
  • Orkusalan
  • Orkuveita Reykjavíkur
  • Rafveita Reyðarfjarðar

Orkusalar kaupa allir stóran eða allan hluta orku sinnar af Landsvirkjun svo í raun skiptir litlu máli fyrir kerfið af hverjum raforka er keypt.  Gjaldskrár orkusala eru hinsvegar mismunandi og því getur munað töluverðu á kostnaði á milli orkusala.

Orkuskattur er fast gjald á hverja kílóvattstund og greiðist til ríkisins.

Ofan á alla ofangreinda liði leggst svo virðisaukaskattur.

Til að sýna dæmi um skiptingu kostnaðar er hér tekið sem dæmi almenn orkugjaldskrá Orkuveitu Reykjavíkur í dreifingu og orkusölu miðað við verðskrá frá 1. júlí 2010.

Kostnaðarliður

kr/kWst

Hlutfall

Athugasemd

Flutningur

1,27

15,8%

Dreifing

2,52

31,3%

Fast gjald greitt að auki, 19,58 kr/dag

Orka

4,15

51,5%

Orkuskattur

0,12

1,5%

Samtals

8,06

100,0%

 

Við þessi verð bætist svo virðisaukaskattur.

ICEconsult Mörkinni 6 108 Reykjavík orkuvaktin(hjá)orkuvaktin.is Sími: 412 8600